2008/02/06

Opið bréf til biskups Íslands, séra Karls Sigurbjörnssonar

Komdu sæll Karl,

Eins og þér er kunnugt urðum við íbúar Laufássóknar fyrir þeim mikla missi að sóknarpresturinn okkar, séra Pétur Þórarinsson, lést á síðasta ári. Péturs verður lengi saknað enda var þar á ferð einstakur maður sem margir dáðust að og sóttu styrk til.

Í Laufási hefur verið rekinn myndarbúskapur síðan séra Pétur flutti þangað með fjölskyldu sína. Þeir feðgar hafa verið sérstaklega öflugir í hverskyns félagsstarfi og því samstarfi sem sauðfjárbændur þurfa að hafa með sér. Jörðin hefur verið bætt umtalsvert og aukið við hlunnindi hennar. Ekki er hægt að segja annað en staðurinn hafi blómstrað í höndum þeirra. Inga í Laufási hefur unnið að því hörðum höndum með Minjasafninu á Akureyri að hefja gamla bæinn í Laufási til vegs og virðingar, þar er nú rekin öflug ferðaþjónusta þar sem tugþúsundir gesta koma við á hverju ári. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með allri þeirri uppbyggingu og lífi sem verið hefur í kringum Laufásfólkið síðustu árin. Að sama skapi er það dapurlegt að verða vitni að tilraunum þröngs hóps innan prestastéttarinnar að bola fjölskyldu séra Péturs burt úr Laufási. Þú mátt líta á þetta bréfkorn sem ákall til biskups um að koma í veg fyrir slíkar tilraunir.

Svona lítil samfélög eins og okkar þola það illa þegar sterkum stofnum er svipt í burtu. Samfélagi sauðfjárbænda blæðir þegar yngsti bóndinn með stærsta fjárbúið er skorinn við stokk. Þetta vitum við sem búum á svæðinu, við vitum hversu mikilvægur hver einstaklingur er fyrir heildina. Það er algjörlega óskiljanlegt hvað þessum hópi gengur til, en við sveitungarnir eigum bágt með að trúa því að allir limir þjóðkirkjunnar dansi eftir sama höfði hvað þetta mál varðar. Laufásprestakall er orðið svo stórt að prestur hlýtur að eiga bágt með að reka búskap samhliða preststarfinu, hvað þá viðlíka stórbú og er á staðnum núna.

Í haust gekk undirskriftarlisti hér um sóknirnar sem nú tilheyra Laufásprestakalli. Þar var biskup beðinn að sjá til þess að fjölskylda séra Péturs gæti fengið jörðina leigða og stundað þar áfram búskap og ferðaþjónustu, þrátt fyrir að nýr prestur kæmi í Laufás. Á listann rituðu nöfn sín 97% þeirra sóknarbarna sem náðist til, og þessi listi hafnaði inni á borði hjá biskupi. Viðbrögð kirkjunnar voru að bjóða Þórarni og Hólmfríði kosti sem vonlaust er að ganga að; leigja í stuttan tíma gegn því að þau fari með íbúðarhús sitt af jörðinni nú í vor. Hvaða vit er í því að leigja jörðina og fara burt með íbúðarhúsið? Þetta eru afarkostir, ekki hægt að líta á þetta “kostaboð” öðruvísi en hreint afsvar. Ætlar þjóðkirkjan í alvörunni að horfa svona gjörsamlega framhjá vilja þegna sinna? Kannski er þetta vitlaus spurning, rétta spurningin er náttúrulega: er þjóðkirkjan til fyrir fólkið eða er fólkið til fyrir þjóðkirkjuna? Ef þjóðkirkjan er ekki fyrir fólk og hlustar ekki á sóknarbörn sín, þá get ég ómögulega skilið að þau sömu sóknarbörn eigi lengur samleið með þjóðkirkjunni. Ég þykist vita að sama hugsun bærist í brjósti sóknarbarna séra Péturs. Í fyrsta skipti í 13 ár sé ég eftir því að hafa gengið úr þjóðkirkjunni, ég myndi svo glöð ganga úr henni aftur núna, Laufásfólkinu til stuðnings.

Illa heiðrar kirkjan minningu séra Péturs með því að neyða fjölskyldu hans burt úr Laufási. Það er nöturlegt að hugsa til þess að öll þau fögru orð sem biskup og prestastéttin viðhafði við andlát Péturs skuli nú vera gleymd, og grafin með honum.

Ásta F. Flosadóttir
Höfða I, Grýtubakkahreppi

astaogkeli<hjá>emax.is

Best Free Hit Counters
Maternity Wear
Maternity Wear